Þetta er samt ekki óraunhæfara en svo að Stafrænt Ísland gefur núna út allan sérsniðinn hugbúnað undir opnum leyfum: GitHub - island-is/island.is: Monorepo for Iceland's digital services. - og Reykjavíkurborg tekur núna þátt í því. Þannig að þetta horfir allt til betri vegar.
En til að svara samt annars ágætum punkti þínum, þá þurfum við samt að nálgast málið öðruvísi en út frá því hvernig hlutirnir eru núna, til þess að breyta þeim. Ef þú gerir ráð fyrir almennu útboði og nefnir ekkert um að þú ætlir að gefa afurðina út opna, eða viljir nota opna tækni, þá vitaskuld koma risarnir með sín risavöxnu lokuðu kerfi og bjóða. Ef þú hinsvegar segir fyrirfram í útboðsgögnunum að kerfið verði gefið út undir opnu leyfi, þá bjóða þessir sömu aðilar í verkefnið út frá þeirri forsendu. Og það er ekkert þessu til fyrirstöðu.
Enda er þetta gert núna, og með góðum árangri. Sem betur fer verður opin tækni og opinn hugbúnaður sífellt meira meginstraums, ekki síst vegna þess að eftirspurnin eftir henni hefur aukist samhliða því að fleiri fyrirtæki öðlast reynslu af vendor lock-in og tilbúnum vandamálum, sem þjóna þeim eina tilgangi að gera söluaðilanum kleift að mjólka kúnna til eilífðarnóns.
Sem minnir mig síðan á þann kostnaðarlið sem er gjarnan litið framhjá: kostnaðurinn við að festast í lokuðum lausnum. Sá kostnaður sést sjaldan í bókhaldinu vegna þess að hann er svo yfirgengilegur að það er næstum því aldrei farið í hann. Þegar það er búið að taka upp eitthvað risavaxið, lokað kerfi, þá er kostnaðurinn við breytingar svo hamlandi að þær eiga sér ekki stað. Þetta er grundvallarmunur á opnum hugbúnaði og lokuðum.