Á Íslandi eru lög sem setja tjáningu skorður. Sérstaklega eru miklar takmarkanir á auglýsingum. Þetta hamlar listamönnum og fjölmiðlum. Borgarleikhúsið sýnir leikrit um fíkil, en má ekki auglýsa það með teikningu af fíklinum að reykja. Íslensk tímarit um læknisfræði, Læknaneminn og Læknablaðið, þurfa að ritskoða auglýsingar á lyfseðilsskyldum lyfjum á vefútgáfu blaðanna. Þeir sem lesa blöðin einvörðungu á netinu kunna því að vera grunlausir um hverjir styrkja útgáfuna. Það er andstætt viðmiðum læknavísinda um gagnsæi í fjármögnun og hagsmunatengsl. Tekjur af áfengisauglýsingum renna svo ekki til íslenskra fréttamanna, heldur til erlendra tæknifyrirtækja.
Erlend tæknifyrirtæki. Ég veit ekki með ykkur, en ég hef samt séð fleiri auglýsingar—á íslensku—um áfengi og veðmál, þá sennilega um hvenær hætti að gjósa, en mig kærir um. Enda fæ ég efni frá þeim sem hafa efni á að veita því til mín. Þar eru fyrirtækin með óheftu auglýsingatekjurnar ofarlega á blaði. Ólíkt Fréttablaðinu sáluga, eða litlum íslenskum fréttastofum og ritstjórnum sem er búið að smætta niður í Gróu á Leiti og aðstoðarmenn. Ríkisútvarp gnæfir þar eitt yfir, þó fleiri séu nú komin undir hæl stjórnmálamanna. Fréttamennska er núorðið mikið til fjármögnuð með hverfulum ríkisstyrkjum og áskriftum.
Viljum við ekki leyfa birtingu auglýsinga innanlands?